Það á ekki lengur við að vísa til nýtingar aukaafurða þegar rætt er um starf þeirra fyrirtækja og frumkvöðla sem nýta hráefni sem fellur til við hefðbundna vinnslu á sjávarfangi. Ástæðan er einfaldlega sú að fyrirtækin eru of mörg, og skapa þannig svo mikil verðmæti, til að sú tilvísun standist skoðun. Fari sem horfir mun nýting þess hráefnis sem áður var hent verða verðmætustu vörurnar sem unnar eru úr sjávarfangi hér á landi og víðar.

Önnur ráðstefna Íslensku sjávarútvegsráðstefnunnar, IceFish, var haldin á dögunum. Viðfangsefni hennar nú sem fyrr var hvernig bæta megi nýtingu sjávarfangs og auka um leið virðisauka í framleiðslu. Um þessa starfsemi hefur um tíma verið rætt um nýtingu aukaafurða – en það er hugtak yfir þá hluta fisksins sem hafa að mestu verið ónýttir í hefðbundinni framleiðslu svo sem haus, slóg, roð og bein.

Hugmyndaauðgi
Ef niðurstöður ráðstefnunnar eru dregnar saman í eina, þá gæti hún verið sú að möguleikarnir takmarkast í raun aðeins af hugmyndaauðgi þeirra sem vilja nýta allt það sem fellur til – og vilja fjárfesta og fjármálastofnana til að veðja á góðar hugmyndir.

Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, og helsti talsmaður þessarar breyttu hugsunar innan sjávarútvegsins, opnaði ráðstefnuna og sagði að hans tilfinning væri sú, og fjölmargra annarra sem starfa innan Sjávarklasans, að orðið hefði til mikilvæg hreyfing fólks hér innanlands sem stefndi að einu markmiði – fullnýtingar alls þess sem berst að landi og engin skyldi draga úr mikilvægi þeirrar hugmyndafræði. Þessi hugsun væri nú þegar búin að setja mark sitt á greinina með áþreifanlegum hætti.

„En lykillinn að því að þessi hreyfing nái markmiðum sínum er samstarf; bæði hér innanlands og með tengslaneti um allan heim,“ sagði Þór en bætti jafnframt við að ólíkt Íslandi þá væri nýsköpun af þessu tagi ekki langt komin í mörgum löndum þar sem tækifærin séu vissulega fyrir hendi. Þar sé því ósvarað hvernig fjárfestum verði komið að borðinu til að kynna sér þá möguleika sem fyrir hendi eru, og að hluta til eigi þetta einnig við hér heima.

Þór tók dæmi frá Bandaríkjunum, nánar til tekið frá Boston þar sem hjarta sjávarútvegs þess stóra lands slær. Þar eru starfandi yfir 500 líftæknifyrirtæki, en aðeins þrjú þeirra tengjast hafinu með einhverjum hætti. Þessar upplýsingar fengust í ferðalagi fimm slíkra fyrirtækja héðan frá Íslandi til borgarinnar, sem undirstrikar að sérstaða Íslands í þessu samhengi er mikil.

Þess skal þó getið að Sjávarklasinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja í allri haftengdri starfsemi á Íslandi – og klasahugsunin takmarkast ekki af neinu, í vissum skilningi.

Fjölbreytni
Hver á eftir öðrum stigu í pontu á eftir Þór forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa náð hvað lengst – eða eru komnir lengst við að byggja upp sín fyrirtæki.

Codland sem er í grunninn fullvinnsluverkefni Vísis hf. og Þorbjörns hf., í Grindavík og Sjávarklasans sem er byggir á fyrrnefndri hugmyndafræði – klasasamstarf þar sem aðilar með mismunandi bakgrunn koma saman til að þróa og vinna verðmæti úr aukaafurðum. Innan Codland klasans eru fyrirtæki eins og þurrkverksmiðja Haustaks sem sérhæfir sig í þurrkun á fiskhausum og beingörðum. Ice-West sem sérhæfir sig í framleiðslu á vörum úr lifur. Þorbjörn sem er að vinna að einangrun prótín isolata að ógleymdri fiskimjöls- og hrálýsisvinnslunni í sjálfri Codland-verksmiðjunni.

Skaginn 3X átti sinn fulltrúa á ráðstefnunni, en fyrirtækið má kalla andlit tæknigeira sjávarklasans á Íslandi í augnablikinu, sem hefur einkennst af miklum vexti undanfarin ár. Eða eins og greiningar Sjávarklasans hafa sýnt; greinin samanstendur af ríflega 70 fyrirtækjum sem þróa, framleiða og selja tæknibúnað og rekstrarvörur fyrir sjávarútvegsfyrirtæki undir eigin vörumerki.

Lækningavörufyrirtækið Kerecis ísfirska er annað dæmi, sem átti fulltrúa á ráðstefnunni. Fyrirtækið notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi. Fyrirtækið hefur verið að hasla sér völl í Bandaríkjunum og fleiri mörkuðum.

Þá er ónefnt fyrirtækið Margildi sem hafa þróað einstaka einkaleyfisvarna framleiðsluaðferð við betri nýtingu á hrálýsi úr síld, loðnu og makríl með því að vinna það til manneldis í stað dýraeldis. Einnig fyrirtækin Atlantic Leather, sem nýtir fiskroð við framleiðslu á leðri; Feel Iceland sem nýtir sama hráefni til framleiðslu á húðvörum og Protis, líftæknifyrirtækis í eigu FISK Seafood, sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski.

Kerfið á eftir
Uppbygging þessara fyrirtækja er flestu áhugafólki um sjávarútveg ágætlega kunn, en að sama skapi komu fram upplýsingar á ráðstefnunni sem voru allrar athygli verðar. Nefna má sem dæmi að á sama tíma og nýsköpunarfyrirtæki horfa til þess að nýta allt sem fellur til við vinnslu á okkar verðmætasta nytjastofni, þorskinum, þá eru takmarkanir að finna í regluverkinu sem leyfa einfaldlega ekki að hluti þess hráefnis sé nýtt til manneldis. Hér virðast nýsköpunarfyrirtækin vera komin langt fram úr þeim sem annast að setja leikreglurnar. Þetta tengist reglum sem við fáum í fangið vegna Evrópusamvinnu, og virðast geta orðið fyrirstaða frekari þróunar. Annað er okkar eigin smíði sem þarf viðhalds við, enda reglurnar settar saman þegar innyfli þorsksins, að hrognum og lifur undanskildum, var kærkomin fæða sjófugla.

Þetta ber að skoða í því ljósi að samkvæmt íslenskum lögum ber að færa allt sem veiðist að landi, og því hefur regluverkið ekki verið lagað að þeim kröfum sem stjórnvöld sjálf setja um nýtingu. Skilaboð stjórnvalda eru að allt skuli nýtt – á sama tíma og það er óleyfilegt samkvæmt þeim reglum sem þau setja.

Tækni
Annað er markvert, og er hvernig tækniþróun innan sjávarútvegsins gerir frekari nýtingu hráefnisins mögulega. Ný tækni við kælingu og bætt meðferð afla yfirleitt er forsenda þess að margt fellur til sem áður var ekki aðgengilegt, eða nýtilegt. Þetta grundvallast aftur af fiskveiðistjórnun og rannsóknum, sem auðvitað breytti hugarfari innan greinarinnar frá því að magn skipti öllu máli, en nú eru það verðmæti þess sem leyfilegt er að afla sem allir verða að hugsa um fyrst og síðast. Allt hverfist þetta svo um sjálfbærni auðlindarinnar og virðingu fyrir því sem hún gefur af sér.

Eins má skoða markaðsmálin í þessu samhengi. Á síðustu misserum hafa tveir mikilvægir markaðir fyrir íslenskt sjávarfang tapast að stórum hluta eða í Rússlandi og Nígeríu. Þetta kennir þá lexíu að í því liggur áhætta að reiða sig um of á einn markað, eina afurð, og fjölbreyttari nýtingu má skoða í því ljósi; sem vörn, eða svar, við breytingum á hefðbundnari mörkuðum fyrir sjávarfang.

Milljarðar
Haldi einhver að eftir litlu sé að slægjast þegar kemur að nýtingu þessara tilteknu hráefna sem um ræðir, þá er það alrangt. Markaður fyrir kollagen, sem er eitt aðal uppbyggingarprótein líkamans, mun nema milljörðum Bandaríkjadollara innan þriggja ára – enda notað í snyrtivörur, heilsufæði, fæðubótarefni og lyf. Talið er að markaður fyrir matvörur og heilsufæði með viðbættu Omega-3 muni nema um 57 milljörðum dollara árið 2025 (um 5.713 milljörðum íslenskra króna) samkvæmt nýrri skýrslu frá Grand View Research, Inc. í Kaliforníu. Í ár er þessi markaður talinn nema um 33 milljörðum dollara (um 3.304 milljörðum). Lækningavörumarkaðir sem Kerecis stílar inn á velta hundruðum milljarða, og lítil hlutdeild getur auðveldlega byggt undir blómlega starfsemi fyrirtækis.

Hugarfarsbreyting
Þó aðeins séu hér fáein dæmi tiltekin um tækifærin sem bjóðast, hafa fjármálastofnanir lengi vel verið tregar til að veðja á nýsköpunarhugmyndir úr þessari átt. Lykilorðið hér er þó hugfarsbreyting.

Brynjólfur Bjarnason, fyrrverandi forstjóri HB Granda, stendur með öðrum að fjárfestingarfyrirtækinu Marinvest, og miðlaði sínum hugmyndum á ráðstefnunni. Hann fullyrðir að hugarfarsbreyting sé að eiga sér stað, eða þegar orðin. Því sé fjármögnun í dag að verða mun auðveldari en var aðeins fyrir fáum árum – áhugi þeirra sem hafa tiltækt fjármagn sé einfaldlega vaknaður.

Þór Sigfússon benti hins vegar á, eða greindi frá þeirri tilfinningu sinni, að innan greinarinnar sjálfrar væru ennþá fyrirtæki sem væru áhugalaus um að fjárfesta í rannsóknum og þróun – í nýsköpun. Snorri Hreggviðsson, stofnandi Margildis, tók undir að innan greinarinnar væru menn hikandi. Í raun hefðu menn í höndunum vinnsluaðferðir sem skiluðu góðri afkomu, og settu því spurningarmerki við það hvort nýjar vinnsluaðferðir væru líklegar til að bæta einhverju við.

Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, hefur reynt á eigin skinni hversu erfitt það er að vinna nýjum hugmyndum innan sjávarútvegsins brautargengi.

„Hugarfarið hefur gjörbreyst. Ástæðan er að ný kynslóð er að taka við. Unga fólkið er mun betur menntað og víðsýnna. Það er mjög athyglisvert hversu margt ungt vel menntað fólk hefur valið sér starfsvettvang í sjávarútvegi á síðustu tíu til fimmtán árum. Það er sennilega þess vegna ástæðan fyrir því hvernig hugarfarið er í greininni í dag, miðað við hvernig það var. Áður voru kröfurnar einfaldlega þær að þú þurftir að alast upp í greininni – vinna á sjó og landi til að hafa eitthvað að segja. Þetta er gjörbreytt og unga fólkið sér þetta ekki með þessum hætti, sem hefur breytt íslenskum sjávarútvegi að miklu leyti miðað við það sem tíðkaðist þegar mín kynslóð var að alast upp,“ sagði Pétur.

Þegar ráðstefnunni lauk sat ein stór spurning eftir. Af hverju liggja peningar á lausu þegar byggja skal nýtt hús, eða fjármagna kaup á hefðbundnum atvinnutækjum, en góðum hugmyndum hefur oftar en ekki verið mætt af tómlæti af fjármálastofnunum og fjárfestum. Þó starfa sérstök sjávarútvegsteymi innan þessara sömu stofnana sem gefa sig út fyrir að byggja á sérþekkingu.

Niðurstaða ráðstefnunnar er hins vegar sú að undirstaðan hefur verið lögð.