Grænlenskir vísindamenn hafa greint nýja fisktegund sem veiddist suðaustur af Grænlandi. Fiskurinn hefur hlotið nafnið nordlig tykhale blyantsmelt og er væntanlega af ætt gulllaxa. Frá þessu er greint á danska vísindavefnum Videnskab.

Fundur fisksins á þessum slóðum kom á óvart því yfirleitt er litið á Grænlandshaf sem tiltölulega vel rannsakað hafsvæði. „Þetta segir okkur að djúpin í Norður-Atlantshafi geyma ýmislegt sem við vitum ekki um,“ segir Jan Yde Poulsen hjá náttúrufræðistofu Grænlands. Hann greindi fiskinn og gaf honum latneska tegundaheitið Nansenia boreacrassicauda.

Nýi fiskurinn er lítill og mjósleginn og verður líklega ekki mikið lengri en 30 sentímetrar. Hann er með risastór augu sem eru helmingur höfuðsins.

Tæplega 300 fisktegundir hafa fundist við Grænland og nýja tegundin var veidd á grænlenska rannsóknaskipinu R/V Pâmiut og fékkst sem meðafli við rannsóknir á grálúðu. Reyndar eru sjö ár síðan en menn tóku þá ekki eftir því að um nýja tegund var að ræða. Við nánari athugun síðar meir kom í ljós að ekki var hægt að heimfæra fiskinn upp á neina þekkta tegund og því ljóst að hér var áður óþekkt fisktegund á ferðinni.