Franska útgerðar- og fiskeldisfyrirtækið Groupe Adrien hefur tekið höndum saman við perúska fyrirtækið Amazone um að markaðssetja nýja eldistegund, sem nefnist risaari, á markaði í Evrópu, að því er fram kemur á vef IntraFish.
Risaari (arapaima gigas) er vatnafiskur upprunninn í fljótinu Amazon. Risaari verður seldur sem frosin flök til að byrja með en einnig verður boðið upp á blokk. Flökin eru ekki í minni kantinum því hvert þeirra vegur 2-2,5 kíló. Þessi fiskur getur orðið risastór og náð allt að 3ja metra lengd. Markmiðið er að vinna markað fyrir sælkera því bragðgæði eru sögð mikil og fiskurinn er skjannahvítur.
Atvinnuveiðar á risaara í Amazon eru ekki lengur leyfðar þar sem tegundin er talin vera í útrýmingarhættu. Sportveiðar eru leyfðar ef menn sleppa aflanum. Innfæddir mega veiða sér til matar.