Filip vel búinn
Báturinn hefur hlotið nafnið Filip - mælist 11 brúttótonn og er af gerðinni Cleopatra 33. Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan L086TIM 315hp tengd ZF V-gír.  Báturinn er útbúinn fullkomnum siglingatækjum af gerðinni Furuno.

Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins.  Báturinn er útbúinn til neta og gildruveiða, en veiðibúnaður bátsins kemur frá Hydema í Noregi.

Öryggisbúnaður bátsins kemur hins vegar frá íslenska fyrirtækinu Viking-björgunarbúnaði.

Rými er fyrir tólf 380 lítra kör í lest bátsins. Í bátnum er upphituð stakkageymsla og salerni með sturtu.  Borðsalur er í brúnni.  Svefnpláss er fyrir þrjá í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél, örbylgjuofn og ísskáp. Reiknað er með að báturinn hefji veiðar núna um mánaðarmótin.

Verkefnastaðan góð
Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Trefja, segir að verkefnastaðan sé ágæt.

„Við erum með marga báta í smíðum á ólíka markaði.  Fjöldi báta gefur samt oftast ekki rétta mynd af umfanginu. Stærstu bátarnir hjá okkur eru á við smíði á sjö til átta bátum af þeim minnstu, þannig að fjöldinn getur verið villandi,“ segir Högni.

Hann segir jafnframt að gengi íslensku krónunnar hafi gert fyrirtækinu mjög erfitt fyrir að undanförnu, enda byggi fyrirtækið mikið á smíðum fyrir erlenda markaði.

„Við erum full bókuð fram eftir næsta ári,“ segir Högni að lokum.