Útgerðarfélagið Hlökk ehf. á Hólmavík fékk núna á dögunum afhentan nýjan bát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði. Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Herja ST-166. Að útgerðinni standa Ingvar Pétursson og Bryndís Sigurðardóttir.

Báturinn er af gerðinni Cleopatra 31 í nýrri útgáfu.  Fyrir á útgerðin annan bát, Hlökk ST-66, af gerðinni Cleopatra 38.

Herja ST er 8,5 brúttótonn og er í krókaaflamarkskerfinu. Báturinn er einnig útbúinn til grásleppu- og handfæraveiða. Línuspil er frá Beiti og netabúnaður frá Rapp. Báturinn mun verða á grásleppuveiðum núna fram eftir vori. Í bátnum er vökvakerfi tilbúið til línuveiða.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Isuzu 6HE1TCX 370hp tengd ZF gír.Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni Furuno frá Brimrún.Öryggisbúnaður kemur frá Viking.

Rými er fyrir 12-14 stk 380 lítra kör í lest.  Svefnpláss er fyrir 2-3 í lúkar auk eldunaraðstöðu með eldavél og örbylgjuofni. Setkrókur er í lúkar og stólar fyrir skipstjóra og háseta í brú.