Nokkrir af stærstu seljendum sjávarafurða og félaga á því sviði í Bretlandi hafa gengið í nýleg samtök sem beita sér fyrir sjálfbærum veiðum (Sustainable Seafodd Coalition, SSC). Tilgangurinn er að koma í veg fyrir þá sóun sem á sér stað þegar fiski er kastað fyrir borð úti á sjó.

Meðal upphaflegra aðila að SSC eru Waitrose, Marks & Spencer, Morrisons, The Co-operative, Bird Eye, Icelandic Group, Young´s Seafood. Samtökin hafa meðal annars notið stuðnings frá stjörnukokknum Hugh Fearnely-Whittingstall sem fjallaði um brottkast í vinsælum sjónvarpsþætti í janúar.

SSC hefur tekið frumkvæðið í baráttunni gegn brottkasti. Aðilar að samtökunum ætla ekki að sitja aðgerðarlausir og bíða eftir því að löggjafinn taki málið föstum tökum. Athyglinni hefur verið beint að vannýttum tegundum og meðafla sem sjómenn hafa ekki hirt um að taka í land og koma í verð. SSC hvetur neytendur til að borða fjölbreyttara sjávarfang og beina kaupum sínum að tegundum sem eru veiddar á sjálfbæran hátt. Þá hafa þau beðið sjómenn um að safna upplýsingum um brottkast til að fá gleggri mynd af ástandi fiskstofna. Einnig er unnið að merkingum þannig að neytendur fái nákvæmari og betri upplýsingar en áður um sjálfbærar fisktegundir.