Nýtt björgunarskip er í smíðum fyrir björgunarsveitina á Höfn og verður afhent á þessu ári. Þetta verður þá fimmta björgunarskipið frá KewaTec skipasmíðastöðinni finnsku til íslenskra björgunarsveita í endurnýjunarverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Sjötta skipið verður svo afhent snemma á næsta ári og verður staðsett á Ísafirði. Íslenska ríkið fjármagnar helming kaupverðs að minnsta kosti tíu björgunarskipa. Hinn hlutann fjármagnar Landsbjörg og björgunarbátasjóðir í heimabyggð.
Nú er fimmta skipið í smíðum, Ingibjörg, sem staðsett verður á Höfn í Hornafirði, og leysir þar af hólmi skip sem smíðað var 1985. Skipið verður afhent í lok júní. Þá er fjármögnun á sjötta skipinu nánast í höfn. Í því samhengi segir Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, að í að skrifað hafi verið undir samning um smíði skipsins við KewaTec. Það skip mun hafa heimahöfn á Ísafirði. Áætlaður afhendingartími er snemma árs 2026.
Stefnt á alls 13 skip
Landsbjörg lætur þó ekki þar numið staðar heldur áformar að endurnýja öll 13 skipin. Stóra verkefnið er að fjármagna hlut Landsbjargar og björgunarsveitarsjóðanna. Svo dæmi sé tekið tók nánast allt samfélagið á norðanverðu Snæfellsnesi, bæjarfélög, útgerðir, önnur fyrirtæki og einstaklingar, þátt í fjármögnun nýja björgunarskipsins i Rifi, Björgu, sem afhent var í október á síðasta ári. Stjórnendur Landsbjargar vilja í lengstu lög forðast það að rof komi í fjármögnun næstu skipa því þá gæti svo farið að raðsmíðasamningur við KewaTec yrði í uppnámi og semja yrði upp á nýtt, jafnvel við aðra skipasmíðastöð með umtalsverðu óhagræði. Enn fremur sé mikilvægt að huga strax að endurnýjun björgunarskipaflotans til lengri tíma litið svo björgunarsveitirnar standi ekki uppi með úreltan flota eins og raunin hefur verið undanfarin ár. Þegar endurnýjun allra 13 skipanna verður lokið tekur við það verkefni að viðhalda flotanum. Stefnt er að því að í framtíðinni verði nýtt skip í smíðum á vegum Landsbjargar á þriggja til fimm ára fresti.
Frá því að Landsbjörg samdi við ríkið um þátttöku þess í helmingi kostnaðar við hvert skip hafa orðið miklar hækkanir á smíði þeirra og öllum íhlutum. Kaupverð skipanna er bundið þremur mismunandi vísitölum, sem hefur gert það að verkum að hækkun kaupverðs hefur verið miklu mun minni en ef eingöngu hefði verið miðað við neysluvísitölu.
Kjöraðstaða að hafa tvö í smíðum á ári
„Við erum komin áleiðis af stað með fjármögnun á áttunda og níunda skipinu og nú þegar náð um 30% fjármögnun á okkar hlut í hvoru skipi. Það verður svo að koma í ljós hversu hratt og hvort okkur takist að fjármagna það sem eftir stendur,“ segir Kristján.
Reglulega er farið yfir væntanlegar staðsetningar þeirra nýju skipa sem bætast í flota björgunarsveitanna í starfshóp skipuðum fulltrúum Landsbjargar, Landhelgisgæslunnar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Fyrsta skipið, Þór, fór til Vestmannaeyja haustið 2022, Sigurvin fór til Siglufjarðar vorið 2023, Jóhannes Briem til Reykjavíkur haustið 2023 og Björg í Rif haustið 2024. Fimmta skipið, Ingibjörg, fer sem fyrr segir til Hafnar í sumar og Gísli Jóns til Ísafjarðar í byrjun næsta árs. Samkvæmt áætlun sem nú gildir fara næstu skip til Vopnafjarðar, Raufarhafnar, Patreksfjarðar, Skagastrandar, Neskaupstaðar, Sandgerðis og Grindavíkur.
Björn Gunnarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunar hjá Landsbjörg, segir að á þessu ári séu tvö skip í smíðum og kjörstaðan væri auðvitað sú að alltaf yrðu tvö skip í smíðum á hverju ári sem þýddi að endurnýjuninni gæti verið lokið á 4-5 árum. En allt veltur þetta á fjármögnun. Margir einstaklingar og lögaðilar hafa sýnt þessu máli mikinn skilning og stuðning í verki. Þannig hefur tryggingafélagið Sjóvá stutt Landsbjörgu rausnarlega, ekki síst í endurnýjunarferli björgunarskipanna sem félagið styrkti um 142 milljónir kr. Þá vakti athygli þegar útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson styrkti Landsbjörgu um 50 milljónir kr. vegna smíði Bjargar og Hvalur hf. um sömu upphæð. Útgerðir á norðanverðu Snæfellsnesi studdu rausnarlega við fjármögnun Bjargar í Rifi og Skinney-Þinganes lagði fram rausnarlegt framlag til endurnýjunar björgunarskipsins Ingibjargar. Og svo má lengi telja.
Auðveldara að manna nýju skipin
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að tilkoma nýju björgunarskipanna fjögurra sem þegar hafa verið tekin í notkun, breyti öllu. Viðbragðstími við að láta úr höfn er vissulega sá sami og áður en annar viðbragðstími sé allt annar og styttri. Allur aðbúnaður um borð sé betri en það sem skipti mestu máli sé að nú séu sjálfboðaliðar komnir með tæki sem þeim þyki eftirsóknarvert að vinna með. Auðveldara verði að manna ný skip. Til marks um áhugann má nefna skipstjórnarnámskeið í Rifi sem haldið var eftir að nýja björgunarskipið kom þangað síðasta haust. Komust færri að en vildu. Útskrifaðir voru tólf skipstjórnarmenn af þessu námskeiði. Annað sem má nefna í bættum aðbúnaði er að í þeim er salerni ólíkt því sem er í eldri skipunum. Þetta eitt opni fyrir það að konur sækist líka eftir því að vera í áhöfn skipanna. Björn Gunnarsson, verkefnastjóri sjóbjörgunar, nefnir að í nýju skipunum er búnaður sem nefnist gátt og gerir Tetra-fjarskiptabúnaði og VHF-fjarskiptabúnaði kleift að eiga í samskiptum. Með þessu geta skipin sinnt verkefnum þar sem fjarskiptalaust er með því að „gátta“ Tetra-fjarskipti inn í VHF kerfið. Þá sé viðbragðshraði nýju björgunarskipanna allt annar sem kom berlega í ljós í hitteðfyrra þegar leki kom að bát í Húnaflóa. Húnabjörg, björgunarskip Landsbjargar á Skagaströnd af eldri gerð, var ræst út í verkefnið á nákvæmlega sama tíma og nýja björgunarskipið Sigurvin sem lét úr höfn á Siglufirði og átti fyrir höndum helmingi lengri leið. Björgunarskipin komu engu að síður á sama tíma að leka bátnum.