Bernskan ehf. á Súðavík hefur sett á markaðinn beitningarvél fyrir pokabeitu. Vélin er aðlöguð að Mustad beitningarvélinni og gerir í fyrsta sinn kleift að beita með pokabeitu sjálfvirkt úti á sjó, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Bernskan ehf. er sérhæft framleiðslufyrirtæki á pokabeitum. Sveinbjörn Jónsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Bernskunnar, sagði í samtali við Fiskifréttir að pokabeitningarvélin myndi stækka markað fyrirtækisins verulega því hingað til hefur það aðeins þjónað þeim sem handbeita í landi. ,,Líklega eru notaðar um 400 milljónir beitur á ári á Íslandi. Við seldum um 8-9 milljónir af beitum á árinu 2008 og ég gæti trúað því að við höfum selt um 16-17 milljónir árið 2009. Ég veit ekki hvernig markaðurinn skiptist nákvæmlega milli vélbeitningar og handbeitningar en gæti trúað því að vélbeitningin sé með um 60% hlutdeild. Tilkoma pokabeitningarvélarinnar mun því stækka markhóp okkar allmikið,“ sagði Sveinbjörn.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum