Í þriðja og síðasta hluta jólablaðsviðtals í Fiskifréttum segir Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars Seafood, frá öflugu tengslaneti meðal kvenna í sjávarútvegi og ræðir afleiðingar þess að krakkar stundi ekki vinnu,
„Ég ætla bara að hljóma eins og sú gamaldags, miðaldra kerling sem ég er og segja að krakkar í dag hafa flestir varla gert handtak liggur við fyrr en átján ára gömul. Þetta eru árin sem móta mann og árin sem maður lærir viðhorf til vinnu. Þetta fyrirkomulag eins og það er í dag er mjög letjandi; að krakkar geti ekki farið í alvöru vinnu sem tekur aðeins á og herðir aðeins í manni,“ segir Alda.
Engin mamma sem hringir og gerir allt vitlaust
Að sögn Öldu rekur þessi hópur sig á það þegar þau koma loks út í atvinnulífið að það er ekki eins og í skólanum þar sem mamma hringir og gerir allt vitlaust ef það dansa ekki allir í kringum þau.
„Fólk sem er fullorðið í árum talið skortir þennan hluta af uppeldinu; að læra út á hvað lífið gengur. Þetta er engum öðrum að kenna en okkur sjálfum. Þessu er ekki hægt að klína á neinn; ekki á skólakerfið eða neinn annan. Þetta er stórkostlegur foreldravandi.“
Fór þarna inn og sé ekki eftir því
Alda hefur setið í stjórn félags sem heitir Konur í sjávarútvegi, KIS. Í félaginu eru um það bil 300 konur sem annað hvort eru í sjávarútvegi eða í kringum hann.
„Þegar KIS var stofnað vildi ég ekki fara þarna inn og sagði að ég þyrfti enga sér hillu. Að búa til sér vettvang fyrir konur fannst mér að myndi jafnvel gera hlutina erfiðari fyrir konur. En svo fór ég þarna inn og ég sé ekki eftir því,“ segir Alda.
Innan KIS segir Alda vera lítinn kjarna kvenna sem haldi sambandi jafnvel daglega.
Konur sem vaðið hafi eld og brennistein
„Við erum með okkar tengslanet og það er það sem mér finnst ég fyrst og síðast fá út úr þessum félagsskap, fyrir utan að það náttúrlega gaman að hitta þessar stelpur. Og ef ungar konur vilja leita til okkar sem erum dálítið búnar að vaða eld og brennistein í þessu þá er auðvitað mikill heiður að geta leiðbeint þeim. Þetta er svolítið okkar og það er mikill ávinningur í því. Þannig að ég át ofan í mig allt sem ég hafði sagt um að við hefðum ekkert með svona samtök að gera. Það var bara rangt,“ segir Alda Agnes Gylfadóttir að lokum.