Fyrirtækið Zymetech framleiðir meltingarensím úr smáþörmum í þorski. Aðferðin er byggð á tækni sem Jón Bragi Bjarnason heitinn og eiginkona hans, Ágústa Guðmundsdóttir, prófessorar við Háskóla Íslands, þróuðu fyrir liðlega 20 árum síðan. Zymetech hefur á þessum árum þróað húð- og heilsuvörur ásamt lækningavörum sem innihalda þorskensím í gegnum Penzyme tækni fyrirtækisins sem er einkaleyfisvernduð.
Vinnur gegn 85% kvefsýkinga
Zymetech leggur nú mesta áherslu á framleiðslu og markaðssetningu á kveflyfinu PreCold sem er selt undir heitinu ColdZyme.
„PreCold vinnur gegn kvefi. Það virkar best á fyrstu stigum kvefsýkingar. Við höfum sýnt fram á það með rannsóknum að ensímin óvirkja þá sex flokka kvefveira sem valda 85% af kvefsýkingum,“ segir Ásgeir Ásgeirsson framkvæmdastjóri.
Vörunni var vel tekið hér á landi þegar hún kom fyrst á markað 2015 og ZymeTech hefur byggt upp markaði fyrir hana í Evrópu frá árinu 2012. Samstarfsaðili ZymeTech á sviði og sölu og dreifingu í Skandinavíu var sænska fyrirtækið Enzymatica. Félögin sameinuðust árið 2016 og er það skráð á Nasdaq First North markaðinn. Rannsóknir, þróun og framleiðsla fer fram á Íslandi.
Hráefni til ensímframleiðslunnar hefur Zymetech fengið að mestu frá Skinney-Þinganesi. Ásgeir segir að vegna fyrirsjáanlegrar framleiðsluaukningar sé nú leitað samstarfs við fleiri útgerðir. Það sérstaka við framleiðslu Zymetech er vinnsla á afurð sem áður var hent. Með þeim hætti eykst virði þorsksins enn frekar.
Fyrirtækið er einnig með samninga við erlenda aðila sem dreifa snyrtivörum undir sínu nafni sem byggja á virkni ensíma úr þorskslógi sem Zymetech framleiðir.
Dregur úr fölskum Covid-19 prófum
ArcticZymes AS er eitt af nokkrum fyrirtækjum í sjávarklasanum Biotech North í Tromsø. Árið 2004 markaðssetti það ensím sem kallast Cod UNG úr þorskalifur. Það hefur verið notað í greiningarprófunum á alnæmi og lifrarbólgu. Nú hafa fundist not fyrir ensímið í prófunum fyrir Covid-19. ArcticZymes hefur einkaleyfi fyrir ensíminu.
Ensímið dregur úr hættu á fölskum prófunum. Það hefur einnig verið selt til þróunar á greiningarprófum á öðrum vírusbundnum sjúkdómum.
„Það hefur verið mikill uppgangur hjá fyrirtækinu og við sjáum fram á aukna sölu. Við seljum ekki framleiðsluleyfi samkvæmt okkar tækni til annarra fyrirtækja. Viðskiptamódel okkar er að selja fullan pakka af ensímum og hvarfefnum til viðskiptamanna sem þróa og selja tækni til greiningarprófa í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu,“ segir Olav Lanes, framkvæmdastjóri ArcticZymes.
Birt í Fiskifréttum 16. júlí.
Uppfært 20. júlí:
Ný rannsókn sem framkvæmd var af óháðri rannsóknarstofu (in-vitro) staðfestir að PreCold munnúðinn (ColdZyme) óvirkjar 98.3% af SARS-CoV-2 kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þessar niðurstöður er ekki hægt að heimfæra beint yfir á klíníska virkni vörunnar en til þess þarf klíníska rannsókn. Í samskonar rannsóknum hefur verið sýnt fram á virkni PreCold gegn algengustu veiruflokkum sem valda kvefi og í þeim tilfellum hafa niðurstöðurnar verið staðfestar með klínískum rannsóknum. Þessar niðurstöður fyrir SARS-CoV-2 eru því vísbending um að PreCold geti virkað á sama hátt sem vörn gegn COVID-19 sjúkdómnum.