Nortek ehf. hefur gert 270 milljóna samning við tyrknesku skipasmíðastöðina Celiktrans í Suður-Istanbúl. Samningurinn felur í sér að Nortek hannar og setur upp öryggis- og tæknibúnað ásamt fullbúnu gagnaveri í þrjá ísfisktogara sem skipasmíðastöðin er með í smíðum fyrir HB Granda.
Skemmst er að minnast samnings sem Nortek gerði á dögunum um samskonar verkefni í 4 skip, fyrir Samherja, Útgerðarfélag Akureyrar og Fisk Seafood á Sauðárkróki. Þessir tveir samningar munu skapa fjölda hátæknistarfa á Íslandi og í Noregi en fyrirtækið mun þurfa að fjölga tæknimenntuðu starfsfólki vegna samninganna, að því er segir í frétt frá Nortek.
Nortek leggur áherslu á að bjóða heildarlausnir með sérstakri áherslu á öryggis-, upplýsinga- og vöktunarkerfi fyrir útgerðina. Eitt af markmiðunum er að fækka skjám í brú en bæta jafnframt yfirsýn skipstjórans með öllum kerfum skipsins, passa að allar viðvaranir komi skýrt fram og auka rekstraröryggi skipsins. Skipstjórinn fær myndir á skjáina sem gera honum kleift að stjórna og velja hagstæðustu og bestu lausnina við rekstur á skipinu, segir ennfremur í frétt frá Nortek.