Tilkynnt verður í næstu viku á sjávarútvegssýningunni í Brüssel að veiðar á þorski og ýsu utan 12 sjómílna við Noreg hafi hlotið umhverfisvottun. Jafnframt býst norska fiskútflutningsráðið við því að veiðar á þessum tegundum innan 12 mílna hljóti sams konar vottun innan skamms.

Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna. Þar segir að vottunarskrifstofan Moody Marine muni afhenda skírteini þessu til staðfestingar á sýningunni og verði þá heimilt að nota umhverfismerki MSC á afurðirnar. Áður höfðu veiðar Norðmanna á ufsa, síld og makríl hlotið samsvarandi umhverfisvottun.