Norski línubáturinn Atlantic hefur fyllt sig tvisvar af þorski á Flæmingjagrunni á þessu ári og leggur fljótlega af stað í þriðja túrinn. Norskur línubátur hefur ekki athafnað sig á þessum miðum síðan á tíunda áratug síðustu aldar.

Þorskveiðar á þessu svæði voru leyfðar á ný árið 2010 eftir margra ára lokun. Norski kvótinn er 1.300 tonn í ár og er útlit fyrir að Atlantic veiði hann allan að þessu sinni en síðustu þrjú árin hafa veiðiheimildirnar komið í hlut norskra togara. Aflanum landar línubáturinn í Argentia á Nýfundnalandi. Strangar reglur gilda um veiðarnar og er kanadískur eftirlitsmaður um borð auk þess sem kanadíska strandgæslan hefur komið í heimsókn.

Skipstjórinn á Atlantic, Kjell Gunnar Hoddevik, er ekki alls ókunnugur þessum fiskimiðum því hann kom þangað fyrst fyrir 30 árum á bátnum Keltic. Þá tók túrinn sjö mánuði og var saltað um borð. Hann minnir á að sögulega séð hafi norski línuflotinn aflað veiðireynslunnar fyrir þjóð sína á þessum miðum því Norðmenn hafi veitt þar á línu framan af 20. öldinni og svo aftur upp úr 1980. ,,Þegar ég var hér á Keltic á níunda áratugnum var bæði borgarís og rekís á svæðinu. Nú er hér engan ís að sjá,“ segir Kjell Gunnar Hoddevik.

Frá þessu er skýrt á vef norskra útvegsmanna og birtar fleiri myndir.