Þrátt fyrir innflutningsbann Rússa á sjávarafurðum frá ESB, Noregi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu berst norskur lax ennþá til kaupenda í Rússlandi.

Rússneskir innflytjendur hafa nýtt sér löglega smugu og flutt inn ferskan, kældan lax til Hvíta-Rússlands. Hann er slægður og saltaður í þarlendum verksmiðjum og í framhaldinu fluttur inn sem unnin vara til Rússlands.

Vegna milliliða í Hvíta-Rússlandi hefur kostnaður við innflutning á norskum laxi til Rússlands aukist um 15-20%, að því er greint er frá á fréttavefnum Russia Beyond the Headlines. Í september var kílóið af norskum eldislaxi selt á 5,3 dollara en nú greiða rússneskir kaupendur 9,2 dollara fyrir kílóið.