Þátttaka í hrefnuveiðum í Noregi hefur minnkað um næstum helming á síðustu tíu árum. Bátar sem stunduðu hrefnuveiðar voru þá 33 talsins en aðeins 19 bátar fóru til þessara veiða í fyrra, að því er fram kemur á vef norsku fiskistofunnar.

Afli flotans hefur þó ekki minnkað hlutfallslega nærri eins mikið og tala bátanna. Á árinu 2002 veiddust  tæplega 634 hrefnur en í fyrra voru dýrin 533.

Á síðustu árum hefur hrefnukvótinn verið aukinn hressilega eða úr 671 hrefnu árið 2002 í 1286 dýr árið 2011. Í fyrra náðist ekki að veiða nema 41% kvótans.

Ástæðan fyrir minnkandi áhuga sjómanna á hrefnuveiðum er ekki síst sú að arðsemi af veiðunum hefur verið lítil og minni en af öðrum veiðum sem þeim standa til boða.