Norskum sjómönnum á fiskiskipum hefur farið fækkandi á undanförnum árum og meðalaldur þeirra hefur hækkað umtalsvert.
Nú í árslok 2012 voru skráðir 12.030 sjómenn í Noregi sem er 6% færra en fyrir einu ári. Þeir sem hafa sjómennsku að aðalstarfi eru nú rétt um 9.800 en voru 10.220 fyrir réttu ári (4% fækkun). Sjómenn sem hafa fiskveiðar að aukastarfi eru nú 2.224 en voru 2.548 áður (12% fækkun).
Meðalaldur norskra fiskimanna hefur hækkað verulega síðustu árin. Árið 1990 var hann rúm 39 ár hjá þeim sem höfðu fiskveiðar að aðalstarfi en er nú 45,5 ár. Hins vegar hefur meðalaldur þeirra sem hafa fiskveiðar að aukastarfi lítið breyst á þessum tíma og er ennþá um 66 ár.