Áður herjuðu sjúkdómar á norska þorskeldið og áhyggjur eru uppi varðandi bæði slysasleppingar og erfðablöndun, ekki síður en í laxeldinu.

Norðmenn eru teknir til við þorskeldi á ný og áformin eru stór. Síðastliðið vor sagðist þingmaður norska stjórnarmeirihlutans hafa fulla trú á því að árið 2030 verði heildarframleiðslan úr norsku þorskeldi orðin jafn mikil og heildarþorskafli norskra togara. Gæðin verði þó meiri og verðmætin sömuleiðis, sem skýrist af því að eldið getur tryggt stöðugt framboð.

Nú síðast greindu eldisfyrirtækið Norcod og seiðastöðin Havlandet Marin Yngel frá áformum um þorskseiðaeldi sem annar 24 milljónum seiða.

Um þetta hefur verið fjallað í norska Fiskeribladet og fleiri norskum miðlum undanfarið.

Fjögur stærstu þorskeldisfyrirtækin eru með áform upp á samanlagt 80 þúsund tonna framleiðslu árið 2025, en það samsvarar því sem úthlutað var árið 2020 til allra smábáta í Noregi, þeim sem eru styttri en 15 metra og veiða á strandslóð. Þetta eru eldisfyrirtækin Norcod, Gadus, Statt Torsk og Namdal Settefisk, og heildarframleiðsla þeirra á að geta orðið um 120.000 tonn.

Fiskeribladet hafði meðal annars eftir Christian Riber, framkvæmdatjóra Norcod, að verðið á eldisþorski geti orðið 50 til 100 prósent hærra en verðið á veiddum þorski.

Odd Emil Ingebrigtsen sjávarútvegsráðherra hefur tekið fagnandi áformum norskra fyrirtækja um frekara þorskeldi. Allar forsendur séu nú miklu betri en þær voru vegna þess að mikilvæg þróun hefur orðið í eldisaðferðum.

Áhyggjur

Norðmenn stunduðu þorskeldi í nokkuð stórum stíl upp úr síðustu aldamótum. Fiskeribladet greinir frá því að árið 2010 hafi meira en 30 norsk fyrirtæki staðið að þorskeldi í sjó en heildarframleiðslan náði aldrei meira en nærri 21.000 tonnum.

Smám saman fjaraði þó undan þorskeldinu í Noregi upp úr efnahagshruninu þegar framleiðslukostnaður hækkaði og jafnframt lækkaði þorskverð vegna samkeppni frá ódýrum hvítfiski frá Víetnam.

Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, segir að í fyrri bylgju þorskeldis þar í landi hafi bakteríusjúkdómur herjað á þorskinn og töluvert hafi orðið um slysasleppingar. Auk þessi hafi menn áhyggjur af erfðablöndun við villta þorskinn, ekki síður en í laxeldinu.

Skyndidauði

Eitthvað er strax farið að bera á áföllum í norska þorskeldinu. Um miðjan júlí bárust fréttir af skyndilegum fiskidauða í tveimur af þremur kvíum Statt Torsk í Vanylvsfirði. Alls drápust þar 48 þúsund fiskar. Rannsókn á atvikinu leiddi ekki í ljós neina augljósa skýringu.

Engir sjúkdómar fundust í fiskunum og engin merki um þörungablóma eða súrefnistap, þannig að fyrirtækið telur að hræðsla hafi skyndilega gripið fiskana þannig að þeir hröðuðu sér upp að yfirborði án þess að flotmaginn hafi náð að aðlagast þrýstingsmuninum nógu fljótt. Mögulega hafi hvalur verið þarna á ferðinni eða ránfiskur annar, enda þótt engin göt hafi verið á kvíunum.