Norðmenn hafa aldrei haft meiri tekjur af útflutningi á þorski, ýsu og öðrum hvítfiski en fyrstu sex mánuði þessa árs. Útflutningurinn á þessu tímabili nam 249.000 og heildar útflutningsverðmætið var rúmir 103 milljarðar íslenskra króna og hefur aldrei verið hærra.
Mestur vöxtur hefur verið á útflutningi Norðmanna til Kína, sérstaklega í frystum fisk. Hafa þeir reyndar aldrei áður flutt út jafn mikið magn til Kína á hálfu ári.
Fyrstu sex mánuðina í fyrra fluttu Norðmenn út 240.000 tonn af hvítfiski að verðmæti 98 milljarðar íslenskra króna. Aukningin í magni fyrstu mánuði þessa árs eru 7% og 9% í verðmætum.
Útflutningur á ferskum þorski var 54.000 tonn að verðmæti tæpir 23 milljarðar króna sem er aukning um 4.000 tonn í magni og 10% í verðmætum.
Útflutningur á frystum hvítfiski nam 94.000 tonnum að verðmæti tæpir 30 milljarðar króna. Þetta er aukning á magni upp á 7% og verðmætaaukning upp á 8% miðað við fyrstu sex mánuði 2016.
Útflutningur á frystum þorski, þar með töldum þorskflökum, nam 39.000 tonnum og verðmætin 16,5 milljarðar króna. Loks var útflutningur á saltfiski, að mestu til Suður-Evrópu og Suður-Ameríku, 20.000 tonn að verðmæti 11,5 milljarðar króna sem er minnkun um 6% í magni og 1% í verðmætum.