Samtök norskra útvegsmanna (Fiskebåtredernes Forbund) hafa óskað formlega eftir því við norska sjávarútvegsráðuneytið að Smugusamningnum milli Íslands og Noregs verði sagt upp í sumar með það fyrir augum að bæta hlut Norðmanna með nýjum samningi.
Næsti frestur til uppsagnar samningsins er í júní á þessu ári. Samtök norskra útvegsmanna hafa tvívegis áður lagt að stjórnvöldum að segja Smugusamningnum upp, fyrst árið 2002 og svo aftur árið 2006, en ríkisstjórnin hafnaði því í bæði skiptin.
Sem kunnugt er byggðist Smugusamningurinn á sínum tíma á samkomulagi um að Íslendingar létu af veiðum á alþjóðlegu hafsvæði í Smugunni í Barentshafi gegn því að fá þorskveiðiheimildir í norskri og rússneskri lögsögu. Í staðinn fengju Norðmenn loðnuveiðiheimildir og botnfiskveiðiheimildir við Ísland.
Samtök norskra útvegsmanna telja að Norðmenn beri skarðan hlut frá borði í skiptum á veiðiheimildum við Íslendinga og vilja endurskoðun á samkomulaginu á þeim forsendum.
Þegar endurskoðun á samningnum var til umræðu í norska stórþinginu árið 2006 kom fram sú skoðun stjórnvalda að ef samningnum yrði sagt upp gæti það stefnt fiskveiðistjórnun á Smugusvæðinu í hættu. Norsku útvegsmannasamtökin segja að þessar röksemdir eigi ekki lengur við. Aðstæður hafi gjörbreyst á síðustu árum bæði vegna hertra aðgerða gegn ólöglegum og stjórnlausum veiðum og eins með tilkomu veiðivottorða ESB sem stemma eigi stigu við slíkum veiðum. Þeim sem vinni gegn þessum markmiðum sé refsað úti á mörkuðunum.