Norðmenn hafa sótt í grimmt í að landa loðnu á Íslandi á þessari vertíð í stað þess að sigla með aflann til Noregs eða annarra landa.
Á vefnum aflafrettir.is kemur fram að tæplega 30 norsk loðnuskip hafi landað afla hérlendis á þessari vertíð, alls um 25.000 tonnum. Það er vissulega búbót fyrir þá staði þar sem landað er. Nokkrir bátanna hafa landað tvisvar, þeirra á meðal Endre Dyröy (mynd) sem komið hefur með mestan afla.
Eins og fram kom á Fiskifréttavefnum í gær eru Norðmenn við það að ljúka vertíð sinni við Ísland að þessu sinni. Samkvæmt tölum norska síldarsölusamlagsins er tilkynntur afli þeirra í íslenskri lögsögu orðinn 45.000 tonn af 50.900 tonna leyfilegum afla.
Alls eru samanlagðar loðnuveiðiheimildir Norðmanna í lögsögum Íslands, Grænlands og Jan Mayen 81.000 tonn á vertíðinni, þar af hafa 78.000 tonn veiðst.