Öll norsku fiskeldisfyrirtækin sem hafa verið að fjárfesta í íslensku sjókvíaeldi eru skráð á verðbréfamarkaðinn í Osló , að því er fram kemur í nýjustu Fiskeldisfréttum .

Stærst þessara fyrirtækja er SalMar sem fjárfest hefur í Arnarlaxi með veltu upp á rúma 7 milljarða NOK (95 milljarða ISK). Afkoma fyrirtækisins var einnig mjög góð á síðasta ári með EBIT upp á tæp 30%.

Norway Royal Salmon sem fjárfest hefur í Arctic Fish er með rúma 3 milljarða NOK veltu (41 milljarður ISK). Afkoma fyrirtækisins er ekki mjög góð árið 2015 og var EBIT aðeins rúm 7%.

Midt-Norsk Havbruk sem fjárfest hefur í Fiskeldi Austfjarða er þriðja stærsta fiskeldisfyrirtækið sem hefur verið að fjárfesta í íslensku sjókvíaeldi. EBIT á árinu 2015 var rúm 20%.

Måsøval Fiskeoppdrett sem fjárfest hefur í Laxar fiskeldi er minnst þessara fyrirtækja. Afkoma fyrirtækisins var góð á síðasta ári með EBIT upp á tæp 25%.