Síldarlotteríið er í raun eins konar stikkprufukerfi sem var tekið upp um síðustu áramót í þeim tilgangi að auðvelda Hafrannsóknarstofnuninni gagnaöflun.

Þátttakendur eru allir þeir síldveiðibátar Noregs, stærri en 11 metrar að lengd, sem hafa uppfært rafrænar afladagbækur sínar.

Stofnunin „dregur út“ úr þessum flota eftir ákveðnu kerfi tiltekna báta sem eiga þá að skila sýnishorni af afla sínum til stofnunarinnar.

Fyrir stuttu átti norska Hafrannsóknarstofan og norska Fiskistofan fund með fulltrúum útgerðarinnar til að fara yfir reynsluna af þessu fyrirkomulagi. Hafrannsóknarstofnunin segir að almenn ánægja hafi ríkt með útkomuna. Sama niðurstaða fékkst úr spurningakönnun sem gerð var meðal þeirra sjómanna sem tóku þátt í „happdrættinu“.

Reynslan þykir það góð að nú er stefnt að því að hafa sams konar fyrirkomulag á kolmunnaveiðum á næsta ári, 2019.

Geir Huse, sérfræðingur hjá stofnuninni, segir að þetta fyrirkomulag gagnist vel. Með þessu geti sjómennirnir sjálfir lagt sitt af mörkum til að ráðgjöf stofnunarinnar verði sem nákvæmust og réttust.