Hafrannsóknastofnun Noregs í Bergen þarf að greiða 22 milljónir norskra króna eða sem svarar 440 milljónum íslenskra fyrir að selja norska þorskeldisfyrirtækinu Næröysund AS. þorskseiði sem reyndust vera sýkt af þorsksjúkdómnum francisella sem dró fiskinn dauða.

Seiðasalan fór fram árið 2006 en tveimur árum seinna kom í ljós hvers kyns var. Fiskdauðinn leiddi til þess að umrætt þorskeldisfyrirtæki fór á hausinn og lánardrottnar þess kröfðu ríkið um bætur fyrir skaðann. Samkomulag varð um að hafrannsóknastofnunin greiddi áðurnefnda fjárhæð og þarf stofnunin að taka peningana af rekstrarfé sínu.

Í leiðara Fiskeribladet/Fiskaren um þetta mál er þeirri spurningu varpað fram hvort eðlilegt sé að setja hafrannsóknastofnunina í þá stöðu að þurfa að fjármagna rannsóknir sínar með sölu á þorskseiðum til einkafyrirtækja. Fram kemur að sjálfsaflafé með rannsóknum sé sífellt stærri hluti af ráðstöfunarfé  hafrannsóknastofnunarinnar. Þannig hafi 1% af rekstrarfé stofnunarinnar fengist með þeim hætti árið 1991 en nú á árinu 2013 væru það 37%.