Nokkur norsk síldveiðiskip komu til veiða í íslensku lögsögunni í síðustu viku sem er óvenjulegt því nær undantekningarlaust halda Norðmennirnir sig nær heimamiðum við veiðar á norsk-íslensku síldinni. Það sem freistaði þeirra núna var stóra Íslandssíldin sem þeir kalla svo.
Þegar norskir síldarskipstjórar fréttu af því að stóra síld væri að fá inni í íslensku lögsögunni norðaustur af landinu freistuðu nokkrir þeirra gæfunnar í síðustu viku og tóku stefnuna vestur yfir hafið. Í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren segir að hráefnisverðið fyrir 300 gramma síld af miðunum við Noreg sé núna rúmlega þrjár norskar krónur á kílóið (tæplega 60 ísl. krónur) en hægt hafi verið að veiða allt að 400 gramma síld við Ísland sem verðleggist á rúmlega einni norskri krónu betur.
Haft er eftir Oddvar Hevröy skipstjóra á uppsjávarskipinu Talbor, sem leitaði á Íslandsmið, að auk togveiða hafi þeir prófað að veiða síldina í nót með góðum árangri þótt hún hafi verið mismunandi þétt og á mismunandi dýpi.
Talsmaður Síldarsamlagsins í Noregi gefur í skyn í samtali við blaðið að fara verði allt aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar til þess að finna dæmi um síldveiðar Norðmanna við Ísland. Hevröy skipstjóri er þeirrar skoðunar að norskir síldarsjómenn hafi verið of tregir til að leita að stóru síldinni. ,,Það er oft auðveldara að leita skemmra í stóru matarkistuna og taka þá minni síldina. Sú stóra hefur örugglega verið þarna úti síðustu árin,” segir hann. Fram kemur í máli hans að síldin hafi verið á austurleið í áttina frá Íslandi á þriggja hnúta hraða sem þýði að hún verði fljótlega komin inn í norska lögsögu.