Norski sjávarútvegsráðherrann hefur ákveðið hrefnukvóta fyrir norsk skip árið 2017. Þeim verður heimilt að veiða 999 dýr.
Á síðasta ári var heimilt að veiða 880 hrefnur þannig að hér er um rúmlega 13% aukningu að ræða. Kvótinn byggist á reiknilíkani frá vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins sem tryggir sjálfbærni veiðanna, að sögn norskra stjórnvalda.
Veiðarnar mega fara fram við Svalbarða, í Barentshafi, Noregshafi og Norðursjónum. Þessum veiðisvæðum hefur verið slegið saman í eitt svæði.
Á árunum 2014 og 2015 stunduðu 20 norsk skip hrefnuveiðar en skipin voru 17 á síðasta ári. Árið 2014 veiddust 736 hrefnur, 660 dýr árið 2015 og 591 dýr árið 2016.