Þrjú norsk skip komu í gær með kolmunnafarma til Neskaupstaðar. Um er að ræða Nordsjøbas sem var með 1.800 tonn, Slaatterøy með 1.700 tonn og Herøyfjord með 1.860 tonn. Aflann fengu skipin vestur af Írlandi.

Allur kolmunninn fer til mjöl- og lýsisframleiðslu og segir Hafþór Eiríksson verksmiðjustjóri að vel gangi að vinna hann.

„Við erum með báðar verksmiðjurnar í gangi, þá stóru og litlu, og afköstin eru rúm 1.700 tonn á sólarhring. Það er hægt að auka afköstin töluvert frá því sem nú er og það er unnið að því”, sagði Hafþór.