Norðmenn hafa veitt tæp 105 þúsund tonn úr íslenska loðnustofninum á vertíðinni 2011/2012 samkvæmt upplýsingum á vef norska síldarsölusamlagsins.
Þar segir að heildarloðnukvóti norskra skipa hafi verið um 105.300 tonn en ekki er sundurliðað hvernig sá kvóti er tilkominn. Norsk skip máttu veiða allt að 69 þúsund tonn í grænlensku lögsögunni eða lögsögu Jan Mayen. Þá höfðu þau einnig val um að skilja eftir allt að 49.900 tonn fyrir veiðar í íslensku lögsögunni á vetrarvertíð.
Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum veiddu Norðmenn um 58.500 tonn af loðnu á sumarvertíðinni og var allur sá afli veiddur í grænlensku lögsögunni.
Þá veiddu Norðmenn um 46 þúsund tonn í íslensku lögsögunni í janúar og febrúar en leyfi þeirra til veiða hér við land rann út 15. febrúar.
Heildarveiðin á sumar- og vetrarvertíð var því 104.664 tonn.
Samkvæmt þessum tölum virðast Norðmenn hafa náð öllum kvóta sínum í Íslandsloðnu á vertíðinni 2011/2012 eða því sem næst.