Norska strandgæslan hefur kært tvö norsk síldveiðiskip fyrir vanrækslu við veiðar sem leiddi til þess að afli fór til spillis. Tvö önnur skip eru einnig grunuð um svipað kæruleysi.
Samkvæmt frétt norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren köstuðu skipin á torfur sem voru fjórum til fimm sinnum stærri en þau réðu við að innbyrða og því flaut síld út úr nótum þeirra. Í heild er talið að um 100 tonn af síld hafi farið til spillis í þessi fjögur skipti. Tilvikin náðust á myndband og eiga útgerðir skipanna yfir höfði sér tímabundna sviptingu veiðileyfa og skerðingu á kvótum.
Skipin voru á veiðum á norsk-íslenskri síld utan við Toms og Vestarålen í Norður-Noregi þegar atvikin áttu sér stað og kallar forstöðumaður norsku fiskistofunnar í Troms athæfið umhverfisglæp.