Norðmenn eru klárir í slaginn og fyrstu nótaskipin eru á leið til Íslands að veiða loðnu segir á vef norska Síldarsamlagsins (Norges Sildesalgslag). Norðmenn mega veiða hér 34.500 tonn af loðnu. Á vef síldarsamlagsins segir einnig að dræm loðnuveiði hafi verið við Ísland síðustu dagana.

Norskir útgerðarmenn gera sér vonir um að fá gott verð fyrir loðnu, bæði Íslandsloðnu og loðnu úr Barentshafi, þar sem verð á mjöli og lýsi hafi hækkað á síðasta ári og söluhorfur séu góðar í ár. Hátt verð á bræðsluafurðum leiði einnig til þess að hráefni til manneldisvinnslu gæti hækkað.

Á síðasta ári veiddu norsk skip rúmlega 45 þúsund tonn af loðnu við Ísland og þar af fóru 3.500 tonn í manneldisvinnslu.

Norðmenn sjá fram á minnkandi loðnuveiði í Barentshafi. Í ár er loðnukvótinn þar 119 þúsund tonn en var í fyrra 221 þúsund tonn, að meðtöldum 30 þúsund tonnum sem Norðmenn fengu frá Rússum í skiptum fyrir norsk-íslenska síld.