Skýringin á því er sú að þau leita vars fyrir þrálátu bræluveðri en þó aðallega vegna þess að einungis mega 30 norsk uppsjávarskip vera við loðnuveiðar við landið á sama tíma. Hátt í 70 norskum skipum hefur verið veitt leyfi til loðnuveiða.

Norsk loðnuskip höfðu landað átta sinnum frá ársbyrjun á Fáskrúðsfirði. Fyrsta löndunin var 22. janúar og hefur verið mjög mismunandi hve miklu magni er landað hverju sinni, eða allt frá 120 og upp í 1.100 tonn hvert skip. Alls hefur norski flotinn landað nálægt 4.300  tonnum á Fáskrúðsfirði það sem af er vertíð. Alls eru loðnulandanir á Fáskrúðsfirði 14 talsins á árinu og búið að landa 12.725 tonnum. Þar af hefur Hoffell SU, uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, landað 6.334 tonnum.

Birkir sagði að búinn væri að vera talsverður kaldi þarna fyrir austan og óhætt að segja að ótíð hafi síðustu dagana plagað loðnubátana. Fyrir vikið hafi norsku skipin átt fremur erfitt um vik við veiðar í nót og landanirnar beri þess merki. Norski flotinn er núna nálægt línunni sem markar leyfi þeirra til veiða en hann þarf að halda sig norðan við 64°30´N.

Uppgrip fyrir vertinn

„Það er dálítið kúnst að púsla þessu öllu saman. Í gær voru tíu norsk skip við bryggju og í dag eru þau níu. Norðmennirnir óska eftir því að komast inn til hafnar og komast í land og fara bara annað ef ekki er pláss hérna. Hérna bíða þeir í röð eftir að komast á miðin aftur. Ég reyni að halda löndunarbryggjunni auðri fyrir þá sem koma inn til löndunar en það hefur vissulega komið upp hjá okkur löndunarbið. Karlarnir rölta hérna um bæinn og veitingastaðurinn hérna hefur notið góðs af þessu og aðrar verslanir. Það eru ákveðin uppgrip í þessu,“ segir Birkir.

  • Undanfarið hafa verið 8-10 norsk loðnuskip við bryggju á Fáskrúðsfirði - sum landa þar en önnur bíða þess að hefja veiðar. Mynd/Eðvarð Þór Grétarsson

Fleiri á leiðinni

Hátt í 70 norsk skip höfðu fengið leyfi frá Fiskistofu til loðnuveiða við Ísland. Á fimmta tug skipa eru komin og enn fleiri á leiðinni. Að hámarki 30 skip mega vera við veiðar hverju sinni, samkvæmt upplýsingum frá Vaktstöð siglinga.

Norsku skipin mega eingöngu veiða í nót og hefur loðnan lítt verið þeim aðgengileg meðan hún heldur sig djúpt í hafinu. Íslenski flotinn veiddi framan af í nót en á þessu ári hafa veiðarnar farið fram í flotvörpu. Útgefið aflamark á loðnuvertíðinni er 904.200 tonn og af því mega norsk skip veiða 145.382 tonn. Þeim er heimilt að stunda veiðarnar fram til 22. febrúar. Samkvæmt nýjustu tölum frá Fiskistofu höfðu norsk skip veitt tæplega 5.200 tonn af loðnu í íslenskri landhelgi það sem af er ári.

Af íslenska loðnuflotanum er það að frétta að 22 skip stunda veiðarnar og höfðu þau landað tæpum 253 þúsund tonnum í byrjun þessa mánaðar í 152 löndunum. Af einstökum höfnum hefur mest borist til Vopnafjarðar, rúm 40.700 tonn þar sem uppsjávarskip Brims landa, 35.700 tonn höfðu borist til Vestmannaeyja og tæp 35.000 tonn á Neskaupstað og Seyðisfjörð, hvorn stað. Alls hafði verið landað tæplega 7.100 tonnum af loðnu á Fáskrúðsfirði á þessu ári.