Í árhundruð hefur norsk-íslenska vorgotssíldin, stærsti síldarstofn heims, hrygnt við Møre í Noregi. En árið 2021 breyttist þetta skyndilega, hrygningin færðist norður til Lofoten, nær vetrardvalasvæðum stofnsins. Þar hefur hrygning haldist síðan. Frá þessu er sagt á vef Hafrannsóknastofnunar og vísað í vísindagrein sem birtist í Nature, einu virtasta vísindariti heims.
Ný vísindagrein, sem birtist í einu virtasta vísindariti heims, Nature, varpar ljósi á hugsanlegar orsakir þessara breytinga.
„Það vantaði eldri síld sem gat sýnt ungviðinu hvar ætti að hrygna. Nýja kynslóðin þurfti því að bregðast við,“ segir Aril Slotte, sjávarlíffræðingur við Hafrannsóknastofnunina í Bergen í Noregi og aðalhöfundur vísindagreinarinnar í viðtali á heimasíðu stofnunarinnar og er í íslenskri þýðingu hér. Greinin er afrakstur sameiginlegrar rannsóknar vísindamanna frá Noregi, Íslandi og Færeyjum.
Torfufiskar hafa sameiginlegt minni
Frá árinu 2017 til 2022 átti sér stað ofveiði á norskri vorgotssíld og veiðarnar beindust sérstaklega að eldri hluta stofnsins. Á sama tíma var mjög stór síldarárgangur frá 2016 að ganga inní veiðistofninn.
Rannsóknin styðst við þá kenningu að torfufiskar, líkt og síld, treysti á reynslumikla einstaklinga til að leiða hópinn. Ungfiskar læra af eldri fiskum, og þegar þeir eldri hverfa úr stofninum glatast þessi sameiginlega vitneskja. „Þegar við veiðum elsta hlutann úr stofninum, töpum við sameiginlegu minni hans. Ef fleiri eldri síldar hefðu lifað af, er líklegt að hrygningin hefði haldist við Møre,“ útskýrir Slotte.
Gamla síldin gaf eftir gagnvart þeirri yngri
Gögnin sem rannsóknin byggir á eru fjölbreytt og umfangsmikil – þar á meðal merkingar á 200.000 síldum sem gerðar voru við Tromsø á árunum 2016–2023. Þegar merkt síld er veidd og landað, eru merkin skráð í móttökum á Íslandi og í Noregi.

Merkingargögnin sýna að eldri síld hélt áfram að hrygna við Møre þar til 2016. Árgangurinn varð yfirgnæfandi í fjölda í hrygningarstofninum árið 2020. Eftir það elti sú eldri hina yngri norður til Lofoten. „Allir einstaklingar verða að fylgja torfunni, jafnvel þótt hún fari í óvænta átt. Að standa eftir ein er ekki valkostur.“ segir Slotte.
Þetta gæti einnig útskýrt hvers vegna síld blandast stundum öðrum síldarstofnum þ.m.t íslensku sumargotssíldinni – hegðun sem hefur einnig verið staðfest í rannsókninni.
Hugsanleg áhrif á vistkerfið
Hrygning norðar þýðir að síldarlirfurnar fara ekki lengur fram hjá stóru fuglabjörgunum við Røst þegar þær berast með hafstraumum norður til uppeldissvæðanna í Barentshafi.
„Síldarseiði hafa sögulega verið mikilvæg fæða fyrir sjófugla og varpárangur þeirra, fiska og sjávarspendýr. Breytt göngumynstur síldarinnar gæti skapað áskoranir fyrir þessar lífverur,“ segir Slotte. Auk þess benda gögn til þess að Møre sé æskilegra hrygningarsvæði fyrir síldina. Ef stofninn heldur sig við Lofoten til lengri tíma gæti það haft neikvæð áhrif á hann.
Þarf að vernda „leiðbeinendur“ stofnsins
Rannsóknin kallar á endurskoðun á fiskveiðistjórnun. Í dag eru veiðiheimildir reiknaðar í tonnum, en stærri og eldri fiskar hafa meira markaðsvirði og eru því eftirsóttir.
„Við höfum nú sýnt fram á að eldri síld gegnir lykilhlutverki í sameiginlegu minni stofnsins. Eðlilegt næsta skref er að skoða veiðiráðgjöf sem tekur tillit til aldursdreifingu stofnsins,“ segir Slotte.
Árangur framtíðarinnar ræðst af nýjum árgöngum
Ekki er útilokað að síldin snúi aftur til Møre til hrygningar. Þegar stórir árgangar koma inn í stofninn hefur síld tilhneigingu til að dreifa sér yfir stærra svæði. „Við bindum vonir við síldina sem klaktist út árið 2022. Hún verður kynþroska um 2026–2027, og þá gæti atferli stofnsins breyst á ný,“ segir Slotte. En það getur liðið langur tími á milli stórra síldarárganga. Á meðan er árgangurinn frá 2016 enn ráðandi og er nærri því helmingur alls hrygningarstofnsins í dag.
Viðtalið við Slotte á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar (Havforskingsinstituttet), sjá hér.