Ingunn AK kom til Vopnafjarðar í morgun með um 1300 tonn af síld sem fengust í Síldarsmugunni, skammt utan norsku lögsögumarkanna.
Ingunn AK var fimm daga á veiðum en að sögn Guðlaugs Jónssonar skipstjóra fékkst megnið af aflanum undir lok veiðiferðarinnar.
„Það var ekkert um að vera fyrstu dagana á miðunum. Megnið af síldinni er gengið inn í norsku lögsöguna og það er ekki mikið af síld eftir í Síldarsmugunni. Sú síld var sömuleiðis rosalega stygg og það var erfitt að eiga við hana,” segir Guðlaugur á heimasíðu HB Granda.
Síldin, sem verið er að landa úr Ingunni AK á Vopnafirði, er mjög stór og góð. Uppistaðan í aflanum er 340 til 370 gramma síld. Því miður er ekki hægt að nýta síldina í vinnslu að þessu sinni og fer allur aflinn því í bræðslu.
Mjög vont veður var á heimleiðinni hjá Ingunni AK og tók heimsiglingin því lengri tíma en ella hefði verið. Ingunn AK fer nú til síldveiða í norsku landhelginni ásamt Lundey NS en Faxi RE fer til síldveiða á heimamiðum. Að sögn Guðlaugs er brottför áætluð í kvöld.
Skip HB Granda eiga eftir um 3.400 tonna síldarkvóta í norsku lögsögunni og segir Guðlaugur að ætlunin sé að landa aflanum til vinnslu í Noregi