Vísindamenn á Svalbarða hafa í fyrsta sinn fundið norsk-íslenska síld í Isfjorden og Adventfjorden á Svalbarða, að því er fram kemur á vef norska síldarsamlagsins (Norges sildesalgslag).

Þetta er nyrsti fundarstaður síldarinnar og er það talið vera merki um töluverða útbreiðslu hennar í norðurátt segir í áliti háskólasetursins á Svalbarða. Háskólasetrið ásamt starfsmönnum norsku hafrannsóknastofnunarinnar hafa áður fundið síldarseiði (núllgrúppu) á þessum slóðum en fullorðin síld hefur ekki sést þar fyrr.

Í nýlegum rannsóknaleiðangri fékkst 2ja og 3ja ára síld í tveimur togum. Hér er því ekki um tilviljun að ræða. Tveir slíkir rannsóknaleiðangrar eru farnir á ári og í þeim hefur ekki fundist kynþroska síld fyrr. Norsku vísindamennirnir eru mjög undrandi á þessu og segja að síldarfundurinn bendi til þess að búsvæði nork-íslensku síldarinnar hafi stækkað til norðurs. Þeir segja einnig líklegt að síldin, þar sem hún er að finnast á þessum árstíma, hafi verið í fjörðunum á Svalbarða frá því í fyrra.

Skýringin á þessu er talin vera sú að hlýr Atlantshafsstraumur hafi náð norður til Svalbarða. Sérstaklega er til þess tekið að ekki hafi sést ís að neinu marki inni á fjörðum á vesturhluta Svalbarða. Því er jafnvel spáð að hlýindin geti fært ísröndina fjær og opnað fyrir veiði fyrir norðan Svalbarða