Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) leggur til verulegan samdrátt í afla norsk-íslenskrar síldar á næsta ári, eins og fram kom í frétt hér á vefnum fyrr í dag. Ef farið verður að veiðiráðgjöf þess minnkar aflinn úr NA-Atlantshafi úr 437 þús. tonnum í ár í 283 þús. tonn á því næsta.
Í frétt sem nú hefur verið birt á vef Hafrannsóknastofnunar segir eftirfarandi:
Árgangarnir frá 1998, 1999 og 2002-2004 voru allir stórir, sem leiddi til þess að hrygningarstofninn fór vaxandi frá árinu 2003 og náði hámarki árið 2009, en hefur farið minnkandi síðan vegna lélegrar nýliðunar. Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn árið 2014 rétt rúmar 4 milljónir tonna, sem er undir varúðarmörkum (Bpa=5 milljón tonn). Þetta mat er í góðu samræmi við úttekt síðasta árs. Árgangar 2005-2012 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn munu halda áfram að minnka á næstu árum. Talið er að hrygningarstofninn árið 2015 verði um 3,5 milljónir tonna og að hann fari enn minnkandi og verði um 3,2 milljónir tonna árið 2016 ef afli árið 2015 verður samkvæmt aflareglu.
Aflamark árið 2014 var 419 þúsund tonn skv. ráðgjöf ICES, en ekki náðist samstaða strandríkja um skiptingu aflaheimilda árið 2014 og er gert ráð fyrir að aflinn verði 437 þúsund tonn, þ.a. Ísland 60 þúsund tonn. Samkvæmt aflareglu, verður aflamark árið 2015 um 283 þúsund tonn.
Sjá einnig umsögn ICES um ástand makríls og kolmunna á vef Hafró