Skuttogarinn Atlantic Star er nýkominn úr veiðiferð frá Flæmingjagrunni og veiddi þar í einni veiðiferð allan þorskkvóta Norðmanna á svæðinu sem er 510 tonn.
Þessi veiðiferð er merkileg fyrir þá sök að alþjóðlega hafsvæðið austur af Nýfundnalandi var í ár opnað fyrir þorskveiðum í fyrsta sinn í áratug.
Skipstjórinn á Atlantic Star, Hedin Johensen, er að vonum ánægður með túrinn og þau sögulegu þáttaskil sem hann markar. Hann segir að þeir hafi veitt þessi 510 tonn á 11 dögum og það teljist vera góð aflabrögð.
Flæmingjagrunn hefur verið lokað fyrir þorskveiðum frá árinu 2000 þegar þorskstofninn minnkaði verulega en nú hefur stofninn náð sér það mikið á strik að vísindamenn hafa opnað fyrir lítilsháttar veiðar í ár.
Frá þessu er skýrt á vef samtaka norskra útvegsmanna.