Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið að árlegur hrefnukvóti Norðmanna verði 885 dýr næstu fimm árin.

Þar af má veiða 750 dýr meðfram norsku ströndinni og við Svalbarða og afganginn annars staðar.

Kvótinn verður heldur minni en á yfirstandandi ári þar sem ekki verður lengur heimilt að flytja óveiddan kvóta milli ára.

Kvótinn er byggður á stofnstærðarmælingu sem fram kom í talningarleiðöngrum á árabilinu 2003-2007 og er innan þeirra öryggismarka sem vísindanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins hefur samþykkt, að því er fram kemur í frétt frá norska sjávarútvegsráðuneytinu.