Norskir eldisfyrirtæki töpuðu meira en einum milljarði norskra króna á þorskeldi á árunum 2005-2008 og mörg fyrirtækjanna hafa lagt upp laupana, að því er norska útvarpið skýrir frá. Það jafngildir 22 milljörðum íslenskra króna.

Á árinu 2007 voru 27 þorskeldisfyrirtæki í rekstri en á þessu ári hefur þeim fækkað um næstum helming og eru 15 að tölu. Verðið á þorskinum hefur hríðfallið á síðustu árum og er nú aðeins helmingur af verði eldislax. Árið 2001 þegar þorskeldi var að skjóta rótum í Noregi var staðan þveröfug.

Þrjú stærstu fyrirtækin í þorskeldi, Marine Harvest, Grieg Seafood og Fjordlaks Marine eru þegar hætt eldinu. Norska sjávarafurðamiðstöðin (Norsk Sjömatsenter) áætlar að framleiðsla eldisþorsks í Noregi muni minnka úr 21.000 tonnum á síðasta ári  í 7.000-14.000 tonn á næstu tveimur árum.