Norðmenn gætu lært það af Íslendingum hvernig á að hlusta eftir þörfum markaðarins. Þetta segir Yannick Forget-Dugaret, forstjóri stærsta framleiðanda og dreifingaraðila ferskra sjávarafurða í Frakklandi. Fyrirtækið Pomona, sem er með höfuðstöðvar sínar í Boulogne, rekur átján dreifingarstöðvar fyrir sjávarafurðir þar í landi. Frá þessu er greint á vef LÍÚ.
Forget-Dugaret segir Norðmenn verða af verulegum verðmætum fyrir sjávarafurðir sínar með því að veiða nánast allan sinn þorsk á fyrri hluta ársins. „Við borgum sex evrur á kíló fyrri hluta ársins en verðið fer allt upp í tólf evrur á kíló frá september og fram til ársloka," segir hann í viðtali við vefmiðilinn IntraFish.
Í greininni kemur fram að Norðmenn miði við almanaksárið í sinni fiskveiðistjórn en á Íslandi hefjist fiskveiðiárið 1. september. Síðustu mánuði ársins séu Íslendingar og Færeyingar í lykilstöðu á markaði. Í ofanálag segir Forget-Dugaret Íslendinga mun sveigjanlegri þegar kemur að því að uppfylla kröfur kaupenda. Þetta komi vel í ljós í viðskiptum með saltfiskafurðir, þar sem Norðmenn haldi fast í eigin hefðir í framleiðslu og hlusti ekki nægilega eftir þörfum markaðarins.
„Fyrir vikið krækja Íslendingar í viðskipti sem annars féllu Norðmönnum í skaut," segir Forget-Dugaret.