Norðmenn fluttu út síldarafurðir fyrir um 4 milljarða króna á árinu 2009 sem jafngildir um 88 milljörðum íslenskra króna. Þetta er aukning um 263 milljónir norskar krónur eða 7% frá árinu 2008.
Rússland er stærsti markaðurinn fyrir norskar síldarafurðir. Á árinu 2009 voru fluttar síldarafurðir til Rússlands fyrir rúman milljarð norskra króna, 153 þúsund tonn af heilfrystri síld og 48 þúsund tonn af frystum flökum. Þetta er reyndar heldur minni útflutningur en á árinu 2008.
Úkraína er annar stærsti markaðurinn. Þangað voru fluttar síldarafurðir fyrir 615 milljónir. Nígería er í þriðja sæti en þangað var flutt út síld fyrir 422 milljónir á árinu 2009. Þýskaland er fjórði mikilvægasti markaður Norðmanna en Þjóðverjar keyptu síld af þeim fyrir 401 milljón norskra króna.
Heimild: IntraFish