Vera kann að Norðmenn auki makrílkvóta sinn í ár, að því er fram kemur í viðtali við Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra, í blaðinum Sunnmørsposten . Ráðherrann tekur þó fram að þetta sé ekki ákvörðun sem norsk stjórnvöld taki ein.
Lisbeth Berg-Hansen segist hafa átt fund með fulltrúum útgerða norskra uppsjávarskipa fyrr í vikunni og menn hafi verið sammála um að „lenda ekki á sömu galeiðunni“ og Færeyjar og Ísland, eins og hún orðar það. Það græfi undan málstað þeirra.
Ráðherrann ætlar hins vegar að ræða málið við samstarfsþjóðir, fyrst og fremst ESB. Vísindaleg rök kunni að styðja það að veitt verði meira af makríl í ár. Lisbeth Berg-Hansen segir að nýting auðlinda verði að byggjast á vísindum. Hún ætli að fá ný gögn frá vísindamönnum og taka síðan ákvörðun sem byggist á sjálfbærri nýtingu.