Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi á nýliðnu ári nam 44,7 milljörðum norskra króna eða jafnvirði 979 milljarða íslenskra króna. Þetta er sjötta árið í röð sem sett er met í útflutningsverðmæti sjávarafurða þar í landi.

Aukningin milli áranna 2008 og 2009 nam sex milljörðum norskra króna eða sem svarar 131 milljarði íslenskum.

Eftirspurn eftir norskum sjávarafurðum fór fram úr öllum væntingum á síðasta ári, ekki síst eftirspurnin eftir norskum eldislaxi sem vegur þyngst í aukningunni. Hins vegar átti sala á hefðbundnum þorskafurðum undir högg að sækja og verð lækkaði mikið.

Stærsta viðskiptaland Noregs á sviði sjávarafurða var Frakkland en þangað voru seldar sjávarvörur fyrir 4,7 milljarða norskra króna. Þar á eftir kom Rússland með 4,6 milljarða NOK.

Ef litið er til einstakra markaðssvæða var Evrópusambandið langmikilvægast en þangað fóru 59% útflutningsins í verðmætum talið eða sjávarafurðir fyrir 23,7 milljarða króna, jafnvirði 519 milljarða íslenskra króna.

Þessar upplýsingar koma frá Norska fiskútflutningsráðinu.