Á norska stórþinginu er komin fram tillaga um að Norðmenn breyti fiskveiðiári sínu að hætti Íslendinga þannig að það hefjist 1. september ár hvert í stað 1. janúar. Tveir þingmenn Hægri flokksins bera tillöguna fram að þessu sinni en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessari hugmynd er hreyft.
Flutningsmenn benda á að þróunin á nýafstaðinni vetrarvertíð beri glöggt vitni um óhagkvæmni þess að hefja kvótaárið 1. janúar. Gríðarmikið af þorski hrannist inn á markaðinn á stuttum tíma með þeim afleiðingum að verðið lækki. Á haustin fáist hins vegar gott verð fyrir fisk en þá sé kvótinn búinn. Með því að hefja kvótaárið 1. september nýtist bæði ferskfiskmarkaðir og flakamarkaðir betur auk þess sem sjómenn fái meira næði til þess að veiða ýsu og ufsa með þorsk sem meðafla.