Norski strandveiðiflotinn hefur veitt yfir 80% af makrílkvóta sínum sem er alls 11.500 tonn.

Strandveiðar á makríl hafa verið góðar síðustu vikur og margir bátanna við það að klára kvóta sína.

Norski nótaflotinn byrjar ekki makrílveiðar fyrr en í haust enda er makríllinn verðmætastur á þeim árstíma.

Þetta kemur fram á vef norskra útvegsmanna. Þar er ennfremur bent á að á sama tíma og makrílbátarnir veiði vel úti fyrir ströndinni fundi sjávarútvegsráðherrar landanna við Norður-Atlantshaf í dag og á morgun í Brönnöysund í Noregi. Þeirra á meðal séu fulltrúar allra þjóðanna sem hlut eigi að makríldeilunni.