Meira af kolmunnaafla Norðmanna fer nú í manneldisvinnslu en áður. Það sem af er árinu hefur 60.000 tonnum verið landað í slíka vinnslu samanborið við 25.000 tonn á öllu síðasta ári.
Alls hafa norsk skip veitt 173 þúsund tonn þannig að liðlega þriðjungur aflans hefur farið til manneldis en tveir þriðju í mjöl- og lýsisvinnslu. Kolmunnakvóti Norðmanna í ár er 206.000 tonn þannig að 16% hans eru óveidd.
Á vef samtaka norskra útvegsmanna kemur fram að meðalverð fyrir kolmunna til manneldis sé 2,06 norskar krónur á kílóið (44 íslenskar krónur) í ár samanborið við 1,72 norskar krónur í fyrra (37 ISK m.v. núverandi gengi).