Noregur og Grænland hafa endurnýjað fiskveiðisamning landanna og verða gagnkvæmar fiskveiðiheimildir svipaðar á næsta ári og þær eru í ár.
Grænlendingar mega veiða 3.500 tonn af þorski í norskri lögsögu, 900 tonn af ýsu og 700 tonn af ufsa, auk 260 tonna af öðrum tegundum sem meðafla.
Norðmenn fá áfram að veiða 900 tonn af grálúðu við V-Grænland en kvótinn við A-Grænland minnkar úr 500 tonnum í 400 tonn. Sem uppbót fá þeir 200 tonna keilukvóta sem er nýmæli. Þá mega þeir veiða 100 tonn af lúðu við A-Grænland.
Þorskkvóti Norðmanna í grænlenskri lögsögu er áfram 1.200 tonn og karfakvóti 800 tonn. Að auki er leyfilegur meðafli annarra tegunda 150 tonn.