Norsk stjórnvöld hafa neitað að ræða við færeysk stjórnvöld um gagnkvæm fiskveiðiréttindi meðan makríldeilan er óleyst. Þessu lýsir leiðarahöfundur norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren sem valdhroka af hálfu Norðmanna.
Um langt skeið hafa Norðmenn og Færeyingar skipst á veiðiheimildum þannig að færeysk skip hafa getað veitt í norskri lögsögu og norsk skip í færeyskri lögsögu. Fiskveiðisamningur landanna um gagnkvæmar veiðiheimildir tók fyrst gildi árið 1979 og skyldi gilda í sex ár í senn með 12 mánaða uppsagnarfresti. Á hverju ári er ákveðið hvað hvorri þjóð sé heimilt að veiða í lögsögu hinnar það árið. Ekkert verður af því að þessu sinni.
Leiðarahöfundur Fiskeribladet/Fiskaren segir að norsk stjórnvöld hafi ekki sagt þessum samningi upp og því beri þeim skylda til að ræða við Færeyinga. Bent er á að norska ríkisstjórnin sé ekki sjálfri sér samkvæm í þessu máli. Smugusamningurinn sem Noregur gerði við Ísland árið 1998 hafi verið endurnýjaður árið 2010 til fjögurra ára enda þótt Norðmenn hefðu á sama ári sett löndunarbann á makríl frá Íslandi og Færeyjum. Íslendingar hafi því fengið að halda áfram þorskveiðum sínum í Barentshafi í skiptum fyrir loðnukvóta til handa norskum skipum við Ísland.