Samkomulag hefur náðst milli aðila í Noregi um að lágmarksverð á loðnu sem landað er til manneldisvinnslu verði óbreytt á árinu 2011 frá því sem það var á síðustu vertíð. Verðið er 1,80 NOK (35 ISK) á kílóið, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Loðnukvóti Norðmanna í Barentshafi árið 2011 er 275 þúsund tonn samanborið við 245 þúsund tonn árið 2010. Innifalið í kvótanum á næsta ári eru 48 þúsund tonn af loðnu sem Norðmenn fá frá Rússum í skiptum fyrir 15 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld. Auk þess geta norsk skip fengið að veiða loðnu úr íslenska loðnustofninum sem kunnugt er.

Ekki hefur enn verið gengið frá verði á loðnu til bræðslu.