Kvóti að verðmæti mörg hundruð milljóna norskra króna er fluttur á hverju ári frá strandveiðiflotanum í Norður-Noregi til úthafsflotans. Ástæðan er sú að strandveiðimenn hirða ekki um að klára kvótann sinn. Lausnin gæti verið sú að fara “íslensku leiðina”, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Þetta eru meðal annars niðurstöður úr viðamikilli könnun sem Nofima, eitt stærsta rannsóknar- og ráðgjafafyrirtæki Noregs, hefur gert. Í greinargerð Nofima kemur fram að norskir strandveiðimenn taka þorskkvótann sinn á tveimur annasömum vetrarmánuðum. Þeir fá það vel greitt fyrir þorskinn að margir þeirra leggja bátum sínum og taka frítíma fram yfir frekari veiðar. Afleiðing er sú að stór hluti kvóta þeirra í ýsu og ufsa er óveiddur. Þessum kvóta er endurúthlutað til úthafsflotans í lok árs. Fiskvinnslur í Norður-Noregi kvarta yfir því að fá ekki þennan afla til vinnslu.
Undanfarin eitt til tvö ár hefur Nofima fylgst með 11 metra löngum strandveiðibáti með beitningarvél, Saga K, sem Íslendingar gera út frá Tromsø að hætti íslenskra smábátasjómanna. Reynslan af útgerð hans er góð. Til að auðvelda mönnum að taka upp ný vinnubrögð og tileinka sér beitningarvélina leggur Nofima til að reglum um fiskveiðar verði breytt til þess meðal annars að greiða götur þeirra sjómanna sem vilja fara “íslensku leiðina”.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.