Enn falla metin í útflutningi á sjávarafurðum frá Noregi. Á fyrsta ársfjórðungi 2010 voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 12,4 milljarða NOK (268 milljarðar ISK) sem er um 18% aukning frá sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Árið 2009 var metár í útflutningi sjávarafurða í Noregi en árið 2010 stefnir greinilega í það að verða betra.
Í marsmánuði einum nam útflutningurinn 4,7 milljörðum NOK (um 100 milljarðar ISK).
Mikil aukning er í útflutningi á ferskum sjávarafurðum og skila þær yfir helmingnum af verðmætunum á fyrsta ársfjórðungi.
Útflutningsverðmæti ferskra þorskafurða var til dæmis 167 milljónir NOK og er það 22% aukning frá sama tíma í fyrra.
Útflutningur laxaafurða nam 6,5 milljörðum NOK og er það um 37% aukning.