Nýafstaðinn leiðangur norsku hafrannsóknastofnunarinnar leiddi í ljós að aldrei fyrr hefur mælst eins mikið af hrygningarþorski við strendur Noregs. Leiðangursstjórinn, Erik Berg, segir að þetta sé í samræmi við mælingarnar á stærð þorskstofnsins sem gerðar voru síðastliðið haust.
Átta og níu ára þorskar voru mest áberandi í leiðangrinum að þessu sinni og svara þessir árgangar til tveggja þriðju af hrygningarstofninum. Mikið af 9 ára þorskinum er að hrygna í þriðja sinn og 60-70% af hrygningarfiskinum hefur hrygnt oftar en einu sinni sem einnig er einstakt að sögn leiðangursstjórans.